Folfreglur

Folf er spilað líkt og hefðbundið golf nema með frisbí diskum. Eitt stig er talið fyrir hvert skipti sem disknum er kastað. Takmarkið er að fá sem fæst stig (án þess að svindla).

Reglurnar eru mjög líkar þeim reglum sem notaðar eru í hefðbundnu “Golfi” þar sem tillitsemi er einnig hluti af leiknum. Sanngjarnt er að mótspilari þinn fái að kasta án truflunar, það sama myndir þú vilja. Ekki taka kast fyrr en þú er viss um að flug disksins og lending trufli ekki hina spilarana.

Skot frá skotteigi verða að eiga sér stað á eða fyrir aftan ákveðna skotlínu. Ekki kasta fyrr en meðspilarar fyrir framan þig eru komnir úr skotfæri.

Takið fyrstu upphafsskot eftir fyrirfram ákveðni röð og síðan fer röðin eftir skori síðustu brautar, sá spilari sem var með fæstu skotin tekur fyrstur upphafskot.

Diska á ávallt að skilja eftir þar sem þeir liggja og ekki taka upp fyrr en skot er tekið.

Það kostar nokkra æfingu að staðsetja fætur rétt þegar kastað er. Sá fótur sem þú setur þungann á í kastinu verður að vera eins nálægt skotstað og kostur er. Hann má aldrei fara yfir skotlínu og ekki meira en 30 cm fyrir aftan hana eða til hliðar. Hinn fóturinn má vera hvar sem er svo fremi sem hann fari ekki nær körfunni en skotlína er.

Leyfilegt er að fylgja eftir skoti með því að stíga yfir skotlínu eftir að kast er tekið, nema þegar púttað er þ.e. innan 10 metra frá körfu. Ekki er leyfilegt að falla fram fyrir sig til að halda jafnvægi í pútti.

Ef diskurinn festist í tré eða runna í meira en 2 metra hæð, þá er diskurinn færður og settur á jörðina nákvæmlega fyrir neðan þann stað sem hann sat fastur. Um leið bætist eitt refsiskot á skorkortið. Ef diskurinn lendir á stað sem er ekki hægt að kasta frá er hann færður út úr þeim aðstæðum, þó ekki nær körfu, og eitt refsiskot bætt við skorkortið.

Reglur PDGA

Engin ummæli: